SALT- HVER ER MUNURINN?

Salt er lífsnauðsynlegt og við getum ekki lifað án þess en flestir vita ekki að það er gífurlegur munur á salttegundum og hvað það getur gert fyrir heilsuna. Salt er kallað natríumklóríð í efnafræðinni og oftast inniheldur það einnig önnur efni eins og steinefni og snefilefni sem hafa góð áhrif á líkamann en vegna mengunar og viðbættra efna getur það einnig haft miður góð áhrif. Bragðið er heldur ekki alltaf það sama og ættu allir að prófa nokkrar tegundir til að finna muninn.

Þótt salt sé nauðsynlegt öllu lífi, borða flest okkar of mikið af salti. Það er að finna í ýmsum mat frá náttúrunnar hendi en mest af því salti sem við borðum er bætt út í matinn. Mælt hefur verið með því að borða ekki miklu meira en 6 g (1.200 mg) á dag, eða sem svarar um einni teskeið af salti. Of mikil saltneysla getur orsakað of háan blóðþrýsting með tilheyrandi heilsufarsvandamálum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma.

Steinsalt (gróft)

Iðnaðarsalt er unnið úr jörðu þar sem sjór eða salt vatn hefur gufað upp og myndað stórar saltnámur. Þetta er yfirleitt gróft salt, óhreinsað, og getur verið gráleitt vegna steinefna og annarra efna. Í gegnum aldirnar hafa þó steinefnin mikið til hreinsast úr saltinu. Þetta salt er sjaldan notað við matvælaframleiðslu en er nýtt til ýmiss konar iðnaðar og er til dæmis dreift á gangstéttar og götur á veturna. Að sögn Matvælaeftirlitsins var nánast enginn munur á venjulegu borðsalti og iðnaðarsaltinu sem olli miklu fjaðrafoki hér á landi fyrr í vetur. Iðnaðarsaltið var innan allra heilbrigðismarka. Natríumklóríð-innihaldið var 99,6% en viðmiðið er að það verði að vera a.m.k. 97%. Iðnaðarsaltið er ekki talið skaðlegt heilsu en samt sem áður eru ekki gerðar eins strangar kröfur við framleiðslu þess og geymslu.

Steinsalt (fínt)

Matarsalt er mest notaða saltið í heiminum og er oftast unnið úr steinsalti líkt og iðnaðarsaltið, en gerðar eru mun strangari kröfur til hreinleika. Við hreinsun saltsins skolast náttúruleg steinefni burt og við það verður saltið hvítara. Það er iðulega fínmalað og haft í saltstaukum og því þarf að setja misgóð efni út í saltið til að hindra myndun kekkja; t.d. sílíkon. Borðsalt hefur mjög sterkt saltbragð enda uppistaðan næstum því hreint natríumklóríð, eða um 97-99%. Mælt er með því að takmarka notkun borðsalts í mat en það er hentugt í bakstur þar sem það blandast betur saman við hráefnin.

Sjávarsalt

Sjávarsalt verður til þegar sjór gufar upp og fellir þannig út saltkristallana. Þar sem sjávarsalt er yfirleytt ekki hreinsað verða steinefni og snefilefni eftir í saltinu og gefa því ferskt og skemmtilegt bragð. Sjávarsalt inniheldur 85% natríumklóríð og 15% súlfat og magnesíum. Sjávarsalt er mildara á bragðið en borðsalt og oftar valkostur kokka. Hvar og hvernig saltið er unnið gefur sjávarsalti mismunandi blæbrigði í bragði. Til að mynda er nýja íslenska sjávarsaltið frá Saltverki Reykjaness, sem þurrkað er með jarðvarma og tekið úr mengunarlitlum sjó fyrir vestan, mjög milt á bragðið. Til að minnka inntöku á salti er gott að strá flögunum yfir matinn í lok eldunar — þá finnur maður meira fyrir bragðinu. Hægt er að fá sjávarsalt í flögum og fínmalað og í alls konar blöndu með öðru bragði.

Himalaya-salt

Himalaya-saltkristallar eru unnir úr fornri saltnámu í Nepal sem orðin er 250 milljóna ára. Þetta salt er talið eitt það hreinasta í heimi. Það er milt á bragðið og hefur rauðleitan blæ sem orsakast af ríkulegu magni steinefna, snefilefna og járnoxíðs. Himalaya-salt inniheldur um 85% natríumklóríð og restin, 15%, inniheldur mikilvæg efni sem nýtast líkamanum einstaklega vel. Það inniheldur t.d. 84 af þeim 92 snefilefnum sem finnast í líkama mannsins. Auk þess að salta matinn má einnig setja Himalaya-salt út í drykkjarvatn; það hefur jákvæð áhrif á heilsuna og stuðlar m.a. að eðlilegu sýrustigi líkamans. Einnig er gott að nota það sem baðsalt og taka næringuna inn um húðina. Hægt er að fá saltið misgróft og einnig heilu steinana.

Íslenskt jarðsjósalt

Íslenska Jarðsjósaltið er unnið úr heitum jarðsjó sem er að finna í neðanjarðar hraunhelli á Reykjanesskaga. Sjónum var dælt upp á yfirborðið og hitinn í sjónum notaður til að þurka saltið. Þetta var gert fyrir nokkrum árum, áður en verksmiðjan hætti starfsemi, en enn eru til byrgðir af saltinu. Samsetningin á þessu salti er einstök; það inniheldur einungis 42% natríumklóríð, 42% kalíum og 17% magnesíum. Þrátt fyrir lítið saltmagn er það bragðmikið og einstaklega hollt og á ekki að hækka blóðþrýsting. Urta Islandica selur saltið undir nafninu Geothermal salt og Pottagaldrar hafa selt þetta salt sem eðalsalt.

 

Birtist í tímaritinu Í boði náttúrunnar VORIÐ 2012: Kauptu HÉR, aðeins 850 kr.

Tögg úr greininni
,