Morgunvenjur Jóhönnu í Systrasamlaginu

Jóhanna Kristjánsdóttir er önnur systirin í Systrasamlaginu sem nýtur mikilla vinsælda meðal ört stækkandi hóps heilsuáhugafólks. Hún er sú sem vann hjá Heilsuhúsinu í 25 ár og gegndi þar ýmsum störfum. Jóhanna hefur því breiðan og góðan heilsugrunn og sterka sýn þegar kemur að heilsumálum, en er líka mjög sveigjanleg. Við spurðum hana út í hvernig hún byrjar daginn:

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?jóhanna

Ég vakna yfir leitt á bilinu 6.30 -7 á morgnana og mæti í vinnuna annaðhvort kl.8 eða 9.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Ég hef ekki mjög fastmótaðar venjur. Mér finnst nauðsynlegt að hafa sveigjanleika og breytileika í mínum morgunvenjum. Ég er mikil áhugamanneskja um heilsu og að fólk taki ábyrgð á eigin heilsu. Þar sem ég hef unnið í heilsugeiranum ansi lengi hafa mínar morgunvenjur einkennst af því að prufa hinar og þessar aðferðir. Þessi misserin eiga jóga, hugleiðsla og indversku Ayurveda fræðin hug minn allan.!

Ég fór á Kripalu jógasetrið í Bandaríkjunum um páskana. Þar heillaðist ég af jóga nidra sem ég nota núna til að vakna á morgnanna. Mér finnst voða gott að snúsa svolitið en langar til þess að verða þessi týpa sem hoppar fram úr rúminu um leið og klukkan hringir. Þannig að núna hef ég morgun-jóga-nidra-hugleiðsuna mína tilbúna í tölvunni þegar ég vakna. Í stað þess að ýta á snústakkann á símanum mínum set ég jóga-nidra diskinn minn í gang. Mér finnst þetta dásamleg aðferð og það kom mér á óvart hvað ég varð vakandi og hress eftir þessa slökun og alveg tilbúin að fara fram úr.

Ég fæ mér ýmist volgt vatn með fullt að sítrónu út í eða tek eitthvað af jurtatinktúrunum mínum á fastandi maga. Síðan fer ég í góða sturtu og ber á mig dásamlegu Tridosa Ayurveda olíuna mína. Bursta tennur og nota tungusköfun.. Það er nauðsynlegt.

Þar sem ég vinn við það, öðrum þræði, að hræra og hrista ofaní fólk holla og dásamlega súperþeytinga, bíð ég með það að fá mér græna þeytinginn minn þar til ég er kominn í vinnuna. Síðan fæ ég mér smá chiagraut og eftir hann, er ég tilbúin til að hella mér upp á dásamlegt Systrasamlags lífrænt vottað kaffi. Þá má dagurinn byrja.

Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?

Góður svefn, jóga og hugleiðsla hjálpar mér mest. Ef ég fer út af sporinu veit ég hvað ég þarf að gera. Stunda jóga og hugleiðslu. Þá kemur allt hitt sjálfkrafa á eftir.

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir