Morgunvenjur Guðna í Rope Yoga

Við hjá Í boði náttúrunnar erum einstaklega forvitin um hvernig heilsusamlegir Íslendingar byrja daginn og síðast fengum við að fræðast um morgunvenjur Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, fjölmiðlakonu. Í þetta skiptið fáum við að heyra um hvernig Guðni Gunnarsson, rope-yoga kennari og heilsufrömuður byrjar daginn.

gudniHvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Mánudaga, miðvikudaga og föstudaga vakna ég tuttugu mínútur í fimm en þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga vakna ég hálfsjö. Það sem vekur mig er áhugi minn á starfi mínu. Oftast vakna ég áður en klukkan hringir nokkru áður en vinnan byrjar.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Dagurinn hefst alltaf á salerninu þar sem ég skipti um vökva á kerfinu, þ.e. losa blöðruna og fylli síðan á með stóru glasi af vatni sem inniheldur grapeseedextract dropa. Síðan hefjast morgunæfingar. Fyrst geri ég öndunaræfingar og bandvefsteygjur í 1520 mínútur. Síðan raka ég mig. Ég raka allt höfuðið og það geri ég sitjandi í hnébeygju með tveimur rakvélum til að nýta tímann í mjaðma- og bakteygjur, ásamtþví að hugleiða eða fara með staðhæfingar sem marka daginn. Ég klára æfingarnar með því að standa á einum fæti með annað hné eins hátt og ég get og síðan rétti ég úr hinum fótleggnum eins hátt og kostur er 12 sinnum. Síðan beygi ég mig fram og dreg hæl að rassvöðva með krepptan ökkla, 12 sinnum. Því næst bursta ég tennurnar og fer í langa sturtu. Morgunmaturinn er lýsi á fastandi maga og síðan bætiefni. Núna tek ég maca duft, sterkt B vítamín, hvítlauk, pb8magaflóru og grænan safa frá Sollu himnesku. Þessu breyti ég á nokkurra vikna fresti og þá tek ég beepollen, grænt duft, hörfræ og drekk trönuberjasafa. Þetta toppa ég síðan með espresso-kaffi eða grænu tei og hrökkbrauði með osti frá Græna hlekknum. Loks keyri ég í vinnuna og stunda hláturjóga í 15 mínútur, þ.e. ég hlæ alla leið til starfa á hverjum morgni.

Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?

Ég veit að vilji er verknaður og von er væl. Með því að standa við það sem ég segi stend ég með mér. Þegar ég vakna á morgnana spyr ég ekki hvort ég ætli að æfa í dag því annað kemur ekki til greina. Ég svík ekki það sem ég lofa, hvorki sjálfan mig ná aðra. Ég sé engan mun á því að þrífa mig og hirða á annan máta og að stunda heilsu- og hugrækt. Við uppskerum eins og við sáum og við ein berum ábyrgð á farartæki sálarinnar. Þessi vitneskja hvetur mig til dáða og sú vellíðan sem ég uppsker fyrir vikið, þ.e. bæði að hreyfa mig og heiðra orð mitt.

Greinin birtist árið 2013 í vetrarblaði Í boði náttúrunnar. Kauptu eintak af blaðinu HÉR, aðeins 850 kr. Frí heimsending!

Tögg úr greininni
, ,

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir