Krækiberjasaft

Margir eiga góðar minningar úr berjamó. Það er einhvern veginn innprentað í okkur Íslendinga að nýta krækiberin og bláberin, enda má segja að þau séu okkar ávextir. Það er ótrúlegur lúxus að geta skroppið upp í fjallshlíð og tínt næringarrík ber í kílóavís. Hvað er dásamlegra en að koma þreyttur og sæll heim, með fjólubláa tungu, lungun full af súrefni, krukkur fullar af villtum afurðum landsins og góðar minningar? Stór hluti af hollustu berjanna er án efa fólginn í útiverunni, tengingunni við náttúruna og samverustundum með börnunum. Svo eru berin sjálf auðvitað holl og góð, jafnvel þó maður hafi ekki tínt þau sjálfur. Krækiber eru járngjafi (alveg eins og amma sagði alltaf) og innihalda líka C vítamín, sem hjálpar einmitt til við nýtingu járnsins. Sérfræðingarnir mæla með krækiberjum, sérstaklega fyrir íslenskar konur og börn sem mörg hver mega vel við járnskammtinum.

Staup af krækiberjasafti var fastur liður með morgunmatnum á mínum yngri árum, skipaði sama sess og skeið af lýsi. Það var amma sem sá til þess að ég mætti í skólann berjablá um munninn alla haustmorgna og fram eftir vetri. Í ár gerði ég mína fyrstu krækiberjasaft eftir uppskrift frá mömmu. Þetta er líklega upphafið að berjabláum minningum barnanna minna.

Krækiber eru mest notuð í saft, því þau eru safarík, en kjötlítil og hratmikil. Hin klassíska krækiberjasaft sem margir kannast við er sæt, því krækiberin eru soðin með sykri svo saftin geymist langt fram eftir vetri á flöskum. Amma notaði reyndar lítinn sykur og við mæðgurnar höfum lært af henni að bragðsins vegna er sykurinn ekki svo mikilvægur. Undanfarin ár hefur sú eldri af okkur mæðgum gert alveg dásamlega kryddaða krækiberjasaft án þess að nota nokkurn sykur, okkur finnst hún satt að segja miklu bragðbetri og ferskari þannig. En smekkur manna er misjafn, þeir sem vilja sætari saft geta blandað hana til helminga með góðum ávaxtasafa, eða þá hrært smá hunangi/hrásykri út í. Með því að nota engifer, sítrónusafa og sítrónugras verður bragðið svolítið kryddað, sem gerir það að verkum að við söknum sykursins akkúrat ekki neitt. Sú yngri fór í berjamó og fann fullt af stórum, safaríkum krækiberjum, og saman gerðum við þessa dásamlegu saft. Hún geymist ekki jafn vel og sú sykraða. En hægt er að frysta hluta af berjunum og útbúa síðan aftur saft seinna í vetur. Hratið er hægt að þurrka og nota í stemmandi te, eða sjóða upp af því meiri saft. Svo fer restin á safnhauginn.

Þeir sem komast ekki í berjamó geta fundið íslensk krækiber til sölu í mörgum verslunum.

KRÆKIBERJASAFT
10 dl krækiber
3 cm engiferrót eða 2 msk engifersafi/skot
1 stöngull sítrónugras
safinn úr 1 sítrónu eða 2 msk hreinn sítrónusafi úr flösku

  1. Setjið allt í blandara og blandið vel saman.
  2. Sigtið síðan í gegnum spírupoka eða í gegnum klút (gasbleyju) eða nælonsokk, eða grænmetispoka sem fást í Hagkaup í grænmetisdeildinni.
  3. Hellið saftinni á flöskur og geymið í kæli.
  4. Hægt að frysta saftina sjálfa í klakaboxum og færa klakana svo yfir í plastpoka og geyma í frystinum.